Við á Skaganum erum heppin að vera rík af frábæru fólki!

Heiðrún Hámundar er þar á meðal og vill svo skemmtilega til að nú er hún tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 sem framúrskarandi kennari. 
Heiðrún hefur verið ötul í mennta og menningarstarfi á Akranesi um árabil. Hún er tónlistarkennari við Tónlistarskólann og í starfi sínu fyrir Tónlistarskólann hefur hún verið viðloðandi mörg spennandi verkefni. Má þar m.a. nefna Skólahljómsveitina sem hún stýrði um árabil.

Upp á síðkastið hefur hún haldið úti Trommusveit og rytmískri hljómsveit ásamt því að starfa við tónlistarvalið – en það er samstarfsverkefni við grunnskólana á Akranesi. Heiðrún er einmitt tónmenntakennari við Brekkubæjarskóla og verið í broddi fylkingar í því öfluga tónmennta og tónlistarstarfi sem þar er unnið.

Ásamt daglegu tónmenntastarfi hefur hún tekið þátt í alþjóðlegu Erasmus samstarfi. Þá eru uppsetningar á leikritum/söngleikjum og morgunstundir á meðal verkefna sem Heiðrún hefur komið að. Einkenni á þessum viðburðum er að nemendur koma að flest öllum hlutum tengdum þeim, hvort sem það er að flytja tónlist á sviði, sjá um lýsingu og hljóð eða önnur mikilvæg störf tengd viðburðunum. 

Heiðrún er hvetjandi við krakkana, hefur einstakt lag á að fá nemendur til að blómstra á eigin forsendum og er alltaf með áhuga nemenda að leiðarljósi.

Við óskum Heiðrúnu hjartanlega til hamingju með tilnefninguna!

Við mælum svo með að fólk kíki á síðuna hennar þar sem finna má nánari upplýsingar um allt það góða starf sem hún hefur verið með í gangi.

www.heidrunhamundar.rocks