Suzukinám

Suzukiaðferðin er nefnd eftir upphafsmanni aðferðarinnar, japanska fiðluleikaranum Sinichi Suzuki. Hann trúði að öll börn væru fædd með hæfileika til að læra tónlist, og að umhverfið réði því hvort þessi hæfileiki myndi blómstra.

Suzukiaðferðin er einnig kölluð móðurmálsaðferðin, því börnin læra að spila lög með því að hlusta á þau, á sama hátt og þau læra sitt móðurmál. Nótnalestur er kynntur seinna.

Þáttur foreldra er mjög mikilvægur í náminu, þau mæta með börnunum í alla tíma og hjálpa þeim að æfa sig heima og að hlusta á námsefnið. Börn geta byrjað mjög ung í Suzukinámi eða allt frá þriggja ára aldri.

Tónlistarskólinn á Akranesi býður upp á Suzukinám á fiðlu og víólu.