Suzukiaðferðin er kennd við japanska fiðluleikarann Shinichi Suzuki sem trúði því að öll börn séu fædd með hæfileika til að læra tónlist. Hann lagði áherslu á mikilvægi umhverfisins og taldi að með hlýju, endurtekningu og stuðningi gæti tónlistarhæfni barna blómstrað – rétt eins og þegar þau læra að tala.
Aðferðin er oft kölluð „móðurmálsaðferðin“ þar sem börnin læra að spila lög með því að hlusta á þau, líkt og þau tileinka sér móðurmálið sitt. Það er ekki lögð áhersla á nótnalestur í upphafi heldur byggt upp tónrænt minni og spilgleði áður en farið er í lestrarfærni.
Foreldrar gegna lykilhlutverki í náminu. Þeir sækja tímana með barninu, hlusta á tónlistina heima og aðstoða við daglega æfingu. Þetta samspil barns, foreldris og kennara er ein af grunnstoðum Suzukiaðferðarinnar og styrkir bæði námið og tengslin.
Börn geta hafið Suzukinám mjög ung, jafnvel frá þriggja ára aldri. Námið fer fram í öruggu og hvetjandi umhverfi þar sem unnið er eftir einstaklingsmiðuðu tempói hvers barns.
Tónlistarskólinn á Akranesi býður upp á Suzukinám á fiðlu og víólu, með reyndum kennurum sem hafa sérhæft sig í aðferðarfræðinni.
Meira um suzukiaðferðina
