Það er alltaf gaman að fá gesti, og því er gaman að segja frá því að þriðjudaginn 8. október fáum við frábæra gesti á Akranes og í Tónlistarskólann!

Nú er það strengjasveitin Regnbuen frá Noregi sem sækir okkur heim, en hún samanstendur af börnum á aldrinum 8-18 ára. Sveitin dregur nafn sitt af regnboganum, bæði vegna þess hvað það rignir mikið í heimabæ sveitarinnar – Bergen, en einnig af því að í henni eru einstaklingar úr ýmsum áttum. 

Hljómsveitin telur 40 manns og þar á meðal eru tveir hljómsveitarstjórar, þeir Kari Knudsen og Stefn Bivand.

Hljómsveitin verður kl. 16 í Akranesvita og svo aftur kl. 18 í Tónbergi. Þar munu nemendur úr tónlistarskólanum einnig spila með sveitinni. 

Tónlistin sem verður á boðstólum er fjölbreytt og inniheldur verk eftir meðal annars þá Peter Warlock, Suður-Kóreaska tónskáldið Soon Hee Newbold og Edward Grieg.

 

Ókeypis er á tónleikana og allir velkomnir 🙂