Í tilefni af Vökudögum hefur Tónlistarskólinn á Akranesi helgað líðandi viku samspili nemenda af öllu tagi.
Nemendur hafa myndað stærri og smærri hljómsveitir og samspilshópa og verður árangurinn af starfi vikunnar fluttur fyrir gesti Tónlistarskólans á laugardaginn kemur, 4. nóvember. Það verður stöðugur tónlistarflutningur víða um skólann allt frá klukkan 12 á hádegi og fram til kl. 5.
Meðal annars leikur 50 manna hljómsveit í Tónbergi klukkan 13.00, 15.00 og 16.30.
Tilgangurinn með þessari viku er að gefa nemendum tækifæri til að reyna fleira en þeir fá alla jafna í náminu og opna þannig á milli ólíkra þátta starfsins í Tónlistarskólanum.
Allir eru velkomnir.
Kaffisala verður í skólanum.