Góðan dag

Við í Tónlistarskólanum erum sem betur fer í góðri stöðu í þessum aðstæðum sem nú eru uppi, þar sem stór hluti af kennslu okkar fer fram í einkatímum. 

Við munum þó þurfa að breyta einhverju og verða kennarar í sambandi við ykkur út af því.  T.d. falla allir hljómsveitartímar niður og hóptímar/samsöngur geta fallið niður eða verið skipulagðir með öðru sniði þannig að færri nemendur séu í einu og/eða í stærra rými. 

Tímasetningar tímanna geta líka breyst og hugsanlega verður kennsla eitthvað skert því við erum að reyna að takmarka þann fjölda fólks sem er í húsinu á hverjum tímapunkti.  Við skipuleggjum kennslu þannig að aldrei eru fleiri en sjö kennarar að kenna í einu í húsinu.

Allir nemendur eiga að þvo sér um hendur fyrir tíma. 

Tónlistarkennslan verður ekki í grunnskólunum nema að einhverju leyti í Heiðarskóla og færist öll kennsla í húsnæði Tónlistarskólans. 

Aðalinngangi skólans verður þó lokað og allir eru beðnir um að ganga inn um hurð á bakhliðinni sem verður merkt. 

Það er gert til að óviðkomandi séu ekki að koma inn í húsnæði skólans. Við þennan inngang eiga nemendur að fara úr skónum en yfirhafnir eiga að fylgja þeim inn í skólastofurnar.

Kennarar og nemendur reyna að halda 2m fjarlægð og stofur eru þrifnar á snertiflötum eftir hvern tíma og síðan er farið vel yfir allt 1x á dag.

 

Viðkvæmum nemendum og öðrum sem eiga erfitt með að mæta verður boðið upp á fjarkennslu og hver kennari útfærir leiðir að því í samvinnu við nemendur og forráðamenn. Við reynum að koma til móts við alla nemendur eftir bestu getu.

 

Sýningar á Dýrunum í Hálsaskógi sem áttu að vera á vegum leikfélags Fjölbrautarskólans á Akranesi falla niður, sömuleiðs fyrirhugað landsmót lúðrasveita sem og allir tónfundir sem fyrirhugaðir voru í skólanum. 

Þetta eru óvissutímar og við sendum út tilkynningar jafn óðum þegar eitthvað breytist.

 

Bestu kveðjur og nú er upplagt að njóta þess að spila og syngja heima!

 

Stjórnendur og starfsfólk Tónlistarskólans