Þá er komið að skólalokum á þessu viðburðaríka starfsári í Tónlistarskólanum. Það hefur gengið á ýmsu; veðri, vindum og COVID en svo hafa all margir skemmtilegir viðburðir drifið á daga okkar líka. Má þar nefna Maximús Músíkús tónleika sem haldnir voru í haust, öskudagsgleði, tónlistarvalstónleika, söngtónleika í Bílás o.fl.

Þá voru nokkur áfangapróf tekin við skólann og þar af luku 2 nemendur framhaldsprófi. Það voru þær Hafdís Guðmundardóttir söngkona og Hrefna Berg Pétursdóttir fiðluleikari. Þá lauk 1 nemandi miðprófi við skólann og 6 luku grunnprófi. Við óskum öllum þessum nemendum til hamingju með áfangann.

Ákveðin tímamót urðu í starfi skólans í lok árs, en Skúli Ragnar Skúlason hefur ákveðið að láta af störfum sem aðstoðarskólastjóri og kennari við skólann. Hann hefur starfað sem kennari við skólann óslitið frá árinu 1994 og frá árinu 2001 sem aðstoðarskólastjóri. Mikill kraftur einkenndi alltaf störf Ragnars við skólann og þann kraft má vel sjá í starfi hans sem stjórnandi Þjóðlagasveitar Tónlistarskólans, sem heitir nú Slitnir Strengir. Hljómsveitin hefur haldið marga viðburði, bæði innanlands og utan, gefið út 2 plötur og hlotið ýmsar viðurkenningar. Við þökkum Ragnari kærlega fyrir góð störf og skemmtilega samveru og óskum honum alls hins besta í framtíðinni.

Skólaslit voru haldin 28. maí þar sem nemendur sem tóku áfangapróf fengu afhent prófskírteini og Skúli Ragnar var heiðraður fyrir störf sín. 

Tónlistarskólinn byrjar aftur fimmtudaginn 27. ágúst og hlökkum við til að hitta ykkur öll aftur þá! Í millitíðinni þökkum við ykkur kærlega fyrir veturinn og óskum ykkur gleðilegs sumars!